17 novembre 2007

Gengur, talar...og sefur...smá




Fyrir rúmri viku síðan tók Luna sig til og hóf að ganga. Það var aðallega gert í þeim tilgangi að elta Sergio, heimiliskött Hilde og Paolo, (foreldrar Marco). Grey kötturinn er orðinn gráhærður af öllu þessu poti, spörkum, hávaða og klaufaskap í Lunu. En Luna elskar kisa. Verst að kötturinn er vægast sagt sérvitur og á það til að verða ofbeldisfullur, sem þýðir að maður er með ALLA athygli sem til er á Lunu og kisa, ...kisa og Lunu...foreldrar og eigendur gæludýra, þið vitið hvað ég er að tala um.
Luna er ægilega mikið krútt þegar hún gengur, stundum sést hún mæna á gólfið hugsi á svip. Kanski hún sakni þess, litla skottan.

Þessa dagan er Luna mikið að æfa raddböndin. Stundum kemur eitthvað sem líkist orðum, en í raun og veru er voðalega lítið samræmi í þessu hjá henni. Marco er dada eða mamma til skiptis. Ég er víst mamma, dada, múmmú (þegar hún er þreytt) eða jafnvel egge! Kisi er köttöh eða gattó og allt annað sem hreyfist þ.m.t. hundar, önnur börn og dúfur er húttú! Allt annað er röð af samhljóðum og sérhljóðum. Kanski að undanskildu ærslabelgjaorðinu, PA-TA-TA! . Já, patata þýðir kartafla á ítölsku og það er mikið notað sem gælunafn yfir stúlkubörn. Svolítið skemmtileg fyrstu orð. Sabbia =sandur og patata=kartafla. Ef hún heldur svona áfram verður næsta orð án efa ...hmmm...?

Við, dauðþreyttu foreldrarnir ákváðu nú að taka nú svefninn hjá barninu föstum tökum. Af hinum og þessum ástæðum virðumst við aldrei geta verið með einhverja reglu á matartímum og háttatímum, hvað þá reglu á dagblundunum þannig að eftir nokkra umhugsun ákváðum við að koma reglu á hvernig væri farið að sofa. Nú fær hún ekki lengur að sofna á brjóstinu og ég er ekki frá því að hún sofi lengur og betur. Í nótt sofnaði hún um miðnætti og vaknaði kl:9:55. Met! Vona svo sannarlega að hún reyni að slá það, eða allavegana jafna það þó ekki sé nema einu sinni í viku. Góð tilbreyting frá því að vakna 2x yfir nóttina.
Hér er prógrammið okkar, þætti mjög vænt um að heyra hvað ykkur finnst um herlegheitin. Sérstaklega ef þið lumið á einhverjum "leyniráðum".

1) kvöldsnarl, ávextir og seríós
2) koppur = luna fær að pissa í koppinn fyrir svefninn (ég er ekki haldin neinum ranghugmyndum um bleyjulausa Lunu á næstunni en það er ágætt að hún kynnist honum strax)
3) þvottur, ef ekki bað þá handþvottur.
4) náttföt og hrein bleyja
5) kvöldsopi
6) bursta tennurnar
7) marco les fyrir hana sögu eða syngur
8) góða nótt Luna, góða nótt mamma, góða nótt bangsi
og ef hún er of erfið og grætur mikið, þá fer ég. Hræðilegt ekki satt? Yfirgef Lunu til þess að ráfa um stigaganginn þar til hún er sofnuð! En þetta virðist virka. Þurfti sem betur fer bara að fara út fyrsta kvöldið. Erum á dag 4.

Ójá, þetta er líf Lunu þessa dagana.
Kær kveðja úr Róm

PS Hvað er málið með að dreifa úr öllu? Hún elskar að dreifa úr matnum. Helst að klína honum vel og vandlega í einhverja flík, ömmu flíkur eru mjög spennandi, og maka síðan matnum vel og vandlega í öxlina á flíkinni, á borðið eða bara gólfið.

PPS Barnið gnístir og gnístir tönnum! Eyrun gráta og biðja um miskunn, en allt kemur fyrir ekki.

3 commenti:

Anonimo ha detto...

...Marco les eða SYNGUR....
hmm??

Helga ha detto...

jamm... hann syngur grazie roma í ýmsum útgáfum

Unknown ha detto...

E' proprio bella questa bimba! Peccato che non capisco un' acca di quello che c'è scritto! :-)Bacioni e spero di vedervi presto! Luisa.